Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 285 . mál.


415. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, og um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

(Lagt fram á Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Lög um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.


1. gr.


    1. málsl. 6. mgr. 15. gr. laganna (sem var 14. gr. fyrir gildistöku laga nr. 79/1991) orðast svo:
     Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 135.600 kr.

2. gr.


    16. gr. laganna (sem var 15. gr. fyrir gildistöku laga nr. 79/1991) orðast svo:
     Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa tvö börn sín eða fleiri undir 18 ára aldri á framfæri sínu og eiga lögheimili hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur.
    Árleg mæðra- og feðralaun skulu vera sem hér segir:
     Með tveimur börnum      36.000 kr.
    Með þremur börnum eða fleiri      93.600 kr.
    Tryggingaráði er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til maka elli- eða örorkulífeyrisþega þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun. Tryggingaráði er og heimilt að greiða maka einstaklings sem sætir gæslu- eða refsivist mæðra- eða feðralaun enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
     Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. og 52. gr. Nú skráir viðtakandi launanna sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá launin strax niður.

3. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 27. gr. laganna:
    Í 1. málsl. 1. mgr. falla niður orðin „og stjórnun aflvéla og ökutækja“.
    2. málsl. 1. mgr. fellur niður.

4. gr.


    C-liður 1. mgr. 29. gr. fellur niður.

5. gr.


    2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 59/1978, hljóðar svo:
     Launþegar skv. c-lið 30. gr. skulu standa skil á iðgjöldum sínum.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 43. gr. laganna eins og henni var síðast breytt með lögum nr. 1/1992:
    B-liður 1. mgr. orðast svo:
    b.    Samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum eða stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. Fyrir hverja komu til sérfræðings samkvæmt tilvísun greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Með reglugerð skal sömuleiðis setja nánari reglur um notkun tilvísana, þar á meðal í hvaða tilvikum og með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins geti tekið þátt í greiðslu kostnaðar vegna rannsókna og aðgerða hjá sérfræðingum þó sjúklingur hafi ekki tilvísun.
    C-liður 1. mgr. orðast svo:
    c.    Lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Sé heildarverð lyfs jafnt eða lægra en þessi mörk greiðir sjúkratryggður það. Eftir að lyf hefur verið skráð hér á landi skal heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ákveða hvort sjúkratryggingar taki þátt í greiðslu viðkomandi lyfs.

7. gr.


    44. gr. laganna, eins og henni var síðast breytt með lögum nr. 1/1992, orðast svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra. Í stað gjaldskrár ráðherra er Tryggingastofnun þó heimilt að semja um gjaldskrá er gildi um tannlæknaþjónustu, alla eða að hluta, aðra en tannréttingar.
     Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:
    Fyrir tannlækningar barna og unglinga 15 ára og yngri, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, 75%.
    Fyrir tannlækningar 16 ára unglinga, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, 50%.
    Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð hjá börnum og unglingum, 16 ára og yngri, samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn og samþykki sjúkratrygginga.
    Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta fullrar tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en 50% kostnaðar sé tekjutrygging skert, þó er ekki greitt fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.
     Reikningi fyrir tannlæknaþjónstu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.

8. gr.


    48. gr. laganna, eins og henni var breytt með lögum nr. 1/1992, orðast svo:
     Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt lögum þessum. Slíkan samning má gera í framhaldi af útboði. Í þeim tilvikum ákveður sjúkratryggingadeild hvaða tilboði skuli taka eða hvort öllum skuli hafnað. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg getur sjúkratryggingadeild ráðstafað verkinu á grundvelli fasts samningsverðs.

9. gr.


    52. gr. laganna orðast svo:
     Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í Þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.
     Slíkt sambúðarfólk öðlast aldrei meiri bótarétt en þau hefðu haft ef þau væru hjón. Þó er heimilt að greiða sambúðaraðila slysabætur.
     Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í Þjóðskrá.

10. gr.


    71. gr. laganna fellur niður.

II. KAFLI


Um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.


11. gr.


    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti Samábyrgðin hf. — vátryggingafélag.
     Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt:
    að leggja Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þ.e. félagið sjálft ásamt öllum eignum þess og skuldbindingum, til hins nýja hlutafélags,
    að láta fara fram mat á eignum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hins nýja hlutafélags. Við stofnun eru öll hlutabréf í hlutafélaginu eign ríkissjóðs.

12. gr.


    Hlutverk Samábyrgðarinnar hf. skal vera starfsemi á vátryggingarsviði. Félagið annast einnig skylda starfsemi samkvæmt ákvæðum í samþykktum þess og í samræmi við ákvæði laga um vátryggingarstarfsemi og hlutafélagalaga.

13. gr.


    Fastráðnir starfsmenn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum skulu hafa rétt til starfa hjá Samábyrgðinni hf. og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, með síðari breytingum, á því ekki við um þá starfsmenn.

14. gr.


    Stofnfund Samábyrgðarinnar hf. skal halda eigi síðar en 1. maí 1993. Þar skal leggja fram til samþykktar stofnsamning og félagssamþykktir hins nýja félags. Fyrir þann tíma skal stofnaðili félagsins, að frumkvæði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, vinna að því að afla félaginu starfsleyfis sem vátryggingafélagi og undirbúa flutning vátryggingarstofna Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til Samábyrgðarinnar hf. í samræmi við lög um vátryggingarstarfsemi. Samábyrgðin hf. yfirtekur réttindi og skyldur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum samkvæmt reikningsskilum sem miðast við 1. janúar 1993.
     Við yfirfærslu vátryggingarstofnanna gangast vátryggingartakar undir sambærilega vátryggingarskilmála hjá Samábyrgðinni hf. og þeir höfðu áður. Uppsagnarréttur myndast ekki við flutning vátryggingarstofnanna.

15. gr.


    Selji ríkissjóður hlutabréf sín í Samábyrgðinni hf., að hluta til eða öllu leyti, skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.

16. gr.


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fer með eignarhluta ríkisins í Samábyrgðinni hf.

17. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, gildir ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 17. gr. sömu laga gildir ekki um tölu hluthafa.
     Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga um hið nýja félag og greiðir það opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.

III. KAFLI


Gildistökuákvæði.


18. gr.


    Ákvæði I. kafla öðlast gildi 1. janúar 1993. Önnur ákvæði öðlast þegar gildi. Hinn 1. maí 1993 falla úr gildi lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 37/1978, með síðari breytingum, enda hafi Samábyrgðin hf. þá yfirtekið vátryggingarstofna Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Þó skal 17. gr. laga nr. 37/1978 falla úr gildi 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrumvarps fyrir 1993 og ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálum er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um almannatryggingar. Þessar breytingar koma fram í I. kafla þessa frumvarps. Þá hefur verið ákveðið að breyta Samábyrgð Íslands á fiskiskipum í hlutafélag. Hlutabréf í hinu nýja félagi verða í eigu ríkissjóðs en gert er ráð fyrir að ríkissjóður selji bréfin strax á árinu 1993. Nauðsynleg lagaákvæði vegna þessa eru í II. kafla þessa frumvarps.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Ákveðið hefur verið að lækka mæðra- og feðralaun í þeim mæli að þau falli niður með fyrsta barni og lækki samsvarandi með tveimur börnum og fleiri. Jafnframt er gert ráð fyrir að heimilt verði að tekjutengja greiðslu mæðra- og feðralauna með tveimur börnum eða fleirum. Til mótvægis hækkar barnalífeyrir og meðlag. Hækkunin er nokkru minni en lækkun mæðra- og feðralaunanna þar sem þau eru skattlögð en meðlög og barnalífeyrir ekki. Jafnframt verður biðtími sá, sem einstæðir foreldrar hafa eftir að sambúð hefur verið tilkynnt, styttur úr tveimur árum í eitt. Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar vegna þessa.

Um 3.–5. gr. og 10. gr.


    Unnið hefur verið að því að einkavæða slysatryggingar almannatrygginga. Ákveðið hefur verið að stíga fyrsta skrefið í þessa átt með því að fella niður slysatryggingu ökumanns úr ákvæðum laga um almannatryggingar.
     Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 27., 29. og 36. gr. almannatryggingalaga sem fjalla um slysatrygginu ökumanns, auk þess sem 71. gr. laganna er felld niður.

Um 6. gr.


    Ákveðið hefur verið að sjúkratryggingar greiði ekki fyrir sérfræðilæknishjálp og rannsóknir nema sjúklingur hafi tilvísun frá heimilislækni eða heilsugæslulækni. Þetta þýðir að meginreglan verður sú að ef sjúklingur fer til sérfræðings án milligöngu heimilislæknis eða heilsugæslulæknis þá verður sjúklingurinn að greiða sjálfur reikning sérfræðingsins. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð ákveðið undanþágur frá tilvísanaskyldunni.
    Ákveðið hefur verið að draga enn úr lyfjakostnaði. Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu á greiðslu sjúkratryggingar fyrir lyf að einungis lífsnauðsynleg lyf verði ókeypis. Vegna allra annarra lyfja þurfi sjúklingar að greiða hlutdeild í kostnaði í samræmi við reglur sem í gildi eru á hverjum tíma. Þá er og gert ráð fyrir að skilja á milli skráningar lyfja og greiðsluþátttöku ríkisins þannig að í hvert sinn sem nýtt lyf er skráð hér á landi þurfi að ákveða sérstaklega hvort og þá með hvaða hætti sjúkratryggingar taki þátt í greiðslu kostnaðar vegna viðkomandi lyfs.
     Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar á b- og c-liðum 43. gr. almannatryggingalaga vegna þessa.

Um 7. gr.


    Ákveðið hefur verið að breyta greiðsluhlutdeild sjúkratryggðra í tannlæknakostnaði. Þannig mun greiðsluþátttakan vegna tannlækninga, þar á meðal tannverndar, verða 25%. Tannréttingar eru þó aldrei greiddar nema í þeim tilvikum að hún falli undir 39. gr. almannatryggingalaga. Þá er og breytt greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannlækningum aldraðra og öryrkja og hún bundin við að viðkomandi njóti tekjutryggingar, óskertrar eða skertrar.
     Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 44. gr. laga um almannatryggingar vegna þessa.

Um 8. gr.


    Skýrari ákvæði eru hér sett í 48. gr. laga um almannatryggingar um heimild sjúkratryggingadeildar til að gera samninga um einstaka þætti þeirrar þjónustu sem henni ber að veita, þar á meðal með útboði.

Um 9. gr.


    Eðlilegt er talið að stytta biðtíma þann sem sambýlisfólk hefur til að öðlast rétt sem hjón úr tveimur árum í eitt. Af þessu leiðir að þegar sambúð hefur varað í eitt ár eignast viðkomandi sama rétt til almannatrygginga og hjón og missir að sama skapi rétt sem fylgja einstæðum foreldrum. Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 52. gr. laga um almannatryggingar vegna þessa.

Um II. kafla.


     Vegna EES-samningsins þarf að gera nokkrar breytingar á lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum nr. 37/1978, með síðari breytingu. Fella þarf niður einkarétt Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum á því að endurtryggja fyrir bátaábyrgðarfélögin, sbr. 2. gr. laganna. Sömuleiðis þarf að fella niður skattaívilnanir sem Samábyrgðin hefur notið en hún hefur verið undanþegin tekjuskatti og eignarskatti til ríkissjóðs og gjöldum til borgarsjóðs Reykjavíkur nema fasteignaskatti og aðstöðugjaldi, sbr. 17. gr.
     Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar vegna þessa jafnframt því sem ákveðið hefur verið að breyta Samábyrgð Íslands á fiskiskipum í hlutafélag.
     Skiptar skoðanir eru á því hver eigi Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Lögmaður Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður tók saman lögfræðilegt álit um þetta efni. Um Samábyrgðina segir lögmaðurinn svo í álitinu:
    „ . . . Samábyrgðin er einfaldlega stofnun sem starfar eftir gildandi lögum á hverjum tíma. Afstaða ríkisvaldsins til félagsins ræðst af lagafyrirmælunum. Þar er ekki um að ræða eignarrétt í þeim skilningi sem það hugtak hefur venjulega. Þannig getur ríkisvaldið t.d. ekki gert með félagið neinar þær ráðstafanir sem hefðbundinn eignarréttur venjulega heimilar eiganda eignar. Sama er að segja um bátaábyrgðarfélögin. Afstaða þeirra til Samábyrgðarinnar er ekki eignarréttur í lögfræðilegum skilningi. Hún ræðst einfaldlega af gildandi lagafyrirmælum á hverjum tíma.
    Af þessu leiðir að Alþingi getur gert hverjar þær ráðstafanir með Samábyrgðina og eignir hennar sem það kýs. Við þær ráðstafanir verður aðeins að gæta að því að ekki séu skertir hagsmunir þeirra aðila sem eiga gild fjárhagsleg réttindi á hendur Samábyrgðinni samkvæmt samningum við hana eða á öðrum grundvelli. Að því athuguðu sýnist löggjafinn geta t.d. lagt félagið niður og látið eignir þess renna í ríkissjóð, ákveðið að breyta félaginu í hlutafélag þannig að ríkissjóður fái allt hlutaféð eða þannig að hlutafénu sé deilt út til bátaábyrgðarfélaganna og annarra viðskiptamanna félagsins eftir gefnum reglum.“
     Í frumvarpi þessu er því gert ráð fyrir því að í upphafi verði öll hlutabréf í Samábyrgðinni hf. — vátryggingafélagi í eigu ríkissjóðs. Áætlað er að ríkissjóður selji þessi hlutabréf strax á árinu 1993.
     Í þessum kafla frumvarpsins er að finna nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að breyta Samábyrgð Íslands á fiskiskipum í hlutafélag.

Um 11. gr.


    Gert er ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag sem heiti Samábyrgðin hf. — vátryggingafélag. Til þessa hlutafélags renni eignir Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Greinin gerir ráð fyrir því að við stofnun sé allt hlutafé í félaginu í eigu ríkissjóðs.

Um 12. gr.


    Hlutverk hins nýja félags yrði starfsemi á vátryggingarsviði og önnur starfsemi samkvæmt ákvæðum í samþykktum þess og í samræmi við ákvæði laga um vátryggingarstarfsemi. Áréttað er að hér er um almennt vátryggingafélag á hlutafélagaformi að ræða sem lýtur þess vegna bæði lögum um vátryggingarstarfsemi og hlutafélagalögum.
     Skattfríðindi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum munu falla niður 1. janúar 1993, sbr. 19. gr. frumvarpsins. Hið nýja félag mun því greiða opinber gjöld með sama hætti og önnur vátryggingahlutafélög.

Um 13. gr.


    Eins og tíðkast með ríkisfyrirtæki, sem breytt er í hlutafélög, er hér gert ráð fyrir að fastráðnir starfsmenn Samábyrgðarinnar hafi rétt til starfa hjá hinu nýja hlutafélagi. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 eiga því ekki við. Þeir starfsmenn Samábyrgðarinnar, sem greitt hafa í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, eiga rétt á því áfram.

Um 14. gr.


    Rétt þykir að setja tímamörk um það hvenær halda skuli stofnfund hins nýja félags. Nauðsynlegt er að halda hann eins fljótt og mögulegt er eftir að tekin hefur verið ákvörðun um stofnun félagsins, en það er talið vera 1. maí 1993 miðað við að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi í desember 1992. Slitaverðmæti byggir á ársreikningum fyrir árið 1992. Í ársbyrjun þarf að setja á fót undirbúningshóp til þess að undirbúa stofnun félagsins og afla því starfsleyfis í samræmi við lög um vátryggingarstarfsemi. Í því sambandi má nefna að semja þarf samþykktir fyrir félagið og vátryggingarskilmála og útbúa iðgjaldagrundvöll. Yfirtaka er látin miðast við 1. janúar 1993, þ.e. frá þeim tíma sem mat á slitaverðmæti félaganna miðast við. Við þann tíma miðast einnig afnám skattafríðinda hins nýja félags.
     Við yfirfærslu vátryggingarstofnanna gangast vátryggingartakar undir sambærilega vátryggingarskilmála hjá hinu nýja félagi og þeir höfðu áður. Þessir vátryggingarskilmálar verða með venjulegum uppsagnarákvæðum, t.d. eins mánaðar uppsagnarfrestur fyrir lok samningstímabils, en uppsagnarréttur myndast ekki við flutninginn sjálfan. Þetta er áréttað í 2. mgr. 15. gr.

Um 15. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að ríkissjóður leiti samþykkis Alþingis fyrir sölu hlutabréfa sinna í hinu nýja félagi.

Um 16. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fari með eignarhluta ríkisins í félaginu.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Gert er ráð fyrir að II. kafli laganna öðlist þegar gildi. Hinn 1. maí 1993 falla úr gildi lögin um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Niðurfelling þessara laga er þó skilyrt því að hið nýja hlutafélag hafi verið stofnað og yfirtekið starfsemi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Skattfríðindin falla þó niður miðað við 1. janúar 1993.
     Gert er ráð fyrir að I. kafli laganna öðlist gildi 1. janúar 1993.